March 16, 2012

Lóan er komin

Lóan fékk far frá Eyrarbakka til Reykjavíkur í dag. Skapari hennar skutlaði henni og afhenti mér. Lóan er eftirlætis fuglinn minn. Hún er svo látlaus en falleg. Syngur fallega og boðar vorkomuna.

Það væri ekki fallegt að veiða eina lóu yfir sumartímann og geyma í búri heima hjá sér. Dirrindíið hennar myndi missa gleði sína. Koma lóunnar er lík komu jólasveinanna. Hún á sinn tíma og ætti ekki að vera árið um kring. Þrátt fyrir það hefur mig lengi langað í mína eigin lóu.

Fyrir jólin varð ég friðlaus þegar ég sá lóu í búð. Hún var ekki til sölu heldur gjöf frá listamanninum sem tálgar hana til búðareigandans. Þarna var hún komin jólagjöfin sem "spóinn" minn vantaði að gefa mér. Svo ég hafði samband við Hafþór og lagði inn pöntun. Í desember geðveikinni var ekki séns að fá fugla af stærri gerðinni fyrr en á nýju ári.

Í dag fékk ég loks gjöfina mína og get ekki verið glaðari.

3 fuglaskoðarar þóttu mikið til gripsins koma.

Sá skynsami sagði: "Vá flottur fugl, þetta verður þá bara næsta afmælisgjöfin þín"
Sá ljóðræni sagði: "Lóa - góa, það rímar"
Rannsóknarmaðurinn sagði: "Mamma, það vantar vængina á fuglinn"

...samkvæmt vísindavefnum kemur heiðlóan oftast til landsins á tímabilinu 20.mars til 29. mars ;o) Það styttist því í að móinn minn fari fljótt að syngja dirrindííí.

1 comment:

  1. Flott Lóan þín ;) Hafþór er frændi hans Þórhalls (ömmubróðir)...just saying...hahah

    Kv.

    Ásdís granni ;)

    ReplyDelete