March 8, 2012

Auðmjúk

Ljósmynd: Guðbjörg Harpa Ingimundardóttir


Þessi "dreka-árs-mánaðar-markmiðs-færsla" er skrifuð á síðustu stundu. Nokkrar mínútur eru eftir af þessum degi og ég er í kapphlaupi við að klára markmið dagsins.

Í kvöld hittumst við, stelpurnar í vinnunni, til að spjalla og borða gúmmelaði. Það var notalegt að hittast fyrir utan vinnutíma og kjafta saman. Þegar við kvöddum, bað gestgjafinn okkur um að draga spil úr stokki. Spilin áttu að endurspegla það sem er manni ofarlega í huga hverju sinni. Ýmist til að minna okkur á eiginleika sem við ættum að temja okkur í meira mæli eða kosti sem við höfum nú þegar.

Á mínu spili stóð: 
Auðmýkt er eiginleiki þeirra sem hafa sanna sjálfsvirðingu og sækjast því hvorki eftir athygli né viðurkenningu annarra. Allt sem þú gerir einkenist af heilindum, óeigingirni og velvilja.

Sjálfsagt eru fáir mannkostir betri til í þessum heimi en auðmýktin. Það hlýtur að vera lífstíðarverkefni að vinna að auðmýkt. Auðmýktinni fylgir einhver trúarlegur undirtónn... í besta skilningi þess orðs. Gott væri ef að allt sem ég gerði einkenndist af heilindum og velvilja. Athygli og viðurkenning annarra skiptir mig þó meira máli en góðu hófi gegnir... annars héldi ég vart út þessari síðu

No comments:

Post a Comment