March 20, 2012

Við erum ekki öll eins

Ljósmynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir
Þessi mynd var tekin af okkur Trausta í júní 2007. Þrátt fyrir slæmt orðspor sem fer af árinu 2007 þá er það eitt það allra besta sem ég hef lifað. Ef hamingjuhormónin sem flæddu um þennan freknótta kropp, á þessum tíma, fengjust í sprautuformi myndi ég vera sprautufíkill. Fallegi strákurinn minn sem var svo velkominn í þennan heim.

Hann hefur kennt mér svo ótrúlega margt á síðustu 5 árum að stundum finnst mér að hann hafi gengið með mig fremur en ég með hann. Allavega. Naflastrengurinn okkar á milli er sterkur. Tilfinningaskalinn sem miðjustrákurinn minn hefur kynnt fyrir dramatískri móður sinni er ansi víðáttumikill.

Í gær sá ég umfjöllun Íslands í dag um einhverfu. Þar var viðtal við móður drengs á einhverfurófinu. Mér fannst hún hugrökk. Ég er henni og öllum þakklát sem tala um einhverfu einstaklingana í lífi sínu. Í hvert sinn sem ég fylgist með foreldri tala um einhverfa barnið sitt heyri ég sama titringinn í raddböndunum, stoltið í augunum og væntumþykjuljómann sem stafar af því.

Í hvert sinn sem kastljósinu er beint í þessa átt má sjá margbreytileikann í mannlífinu. Einhverfa er svo margt og svo mismunandi. Hún skilgreinir ekki manneskjuna, ekki frekar en háralitur hennar. Flestir sem hafa einhverfugreiningu lifa innihaldsríku lífi. Þeim þykir vænt um fólkið sitt og virðir vináttuna jafn mikils og við hin.

Þessi börn vinna svo marga sigra. Með góðri þjálfun og atlæti geta þau náð miklum árangri. Þau skynja heiminn með öðrum hætti en við "venjulega fólkið". Það er styrkur þeirra.

Það gæti komið sumum á óvart en þetta eru börnin sem gera foreldra sína stoltasta!

Ljósmynd: Tinna Stefánsdóttir

Fyrir áhugasama:


5 comments:

  1. Valborg StefánsdóttirMarch 20, 2012 at 10:14 PM

    hlustaði einmitt á þetta viðtal og fannst þessi móðir svo innilega hamingjusöm,jákvæð og ánægð með fallega strákinn sinn. Flottur pistill hjá þér Agnes. Mér finnst þú líka hugrökk kona og móðir.

    ReplyDelete
  2. Við hjónakornin horfðum einnig á þetta viðtal og er ég fullkomlega sammála þér. Ég var einu sinni spurð eftir að Andri Þór var greindur með dæmigerða einhverfu hvort ég myndi ekki vilja að hann hefði ekki einhverfuna. Ég þurfti ekki að hugsa mig um og ég sagði NEI - því þá væri sonur minn þessi frábæri og stórskemmtilegi einstaklingur sem hann er. Jú þetta er stórt verkefni en það sem bugar okkur ekki, gerir okkur sterkari ;).

    Mér finnst þú líka vera hugrökk!

    ReplyDelete
    Replies
    1. Baráttukveðjur Dóra og takk fyrir kvittið

      Delete
  3. ohh það vantaði...."þá væri sonur minn EKKI þessi frábæri og stórskemmtilegi einstalingur sem hann er"

    ReplyDelete