Ljósmynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir
"Það er eitt enn á leiðinni." sagði sessunautur minn í gærkvöldi. Svo bætti hann við "þetta er auðvitað bilun". Bilunin er að þau eiga von á fimmta barni sínu. Ég óskaði honum auðvitað hjartanlega til hamingju. Það er alltaf ánægjuefni þegar gott fólk eignast barn. Skiptir ekki öllu hvort barnið sé fyrst í röðinni eða það sjöunda.
Þegar ég lá á sængurkvennagangi eftir fæðingu þriðja drengsins míns var hjúkrunarfræðinemi þar sem ég kannaðist við. Sú átti þrjá drengi á sama aldri og ég. Hjúkkuneminn blikkaði mig og sagði að "stelpan kæmi bara næst hjá okkur". Ég var svosem alsæl með fallega þriðja drenginn minn. Fjórða meðgangan heillaði enda þótti mér óhugsandi á þessum tíma að síðasta meðgöngunni væri lokið. Eins og áður segir þá er ég sjúk í meðgöngu- og mjólkurhormóna.
Þegar frá líður verð ég stöðug sáttari við að eiga "bara" þrjár skyttur. Er þrír ekki heilög tala? Flesta daga vikunnar er viðráðanlegt að eiga þrjá óhemju lífsglaða drengi. Meðfram því langar lífsglöðu mömmunni að sjúga það sem mögulegt er útúr vist sinni á þessari jörðu. Stundum er snúið að ná að samræma það.
Hjúkkuneminn er útskrifuð og nú búum við í sömu sveit. Fótboltamömmur sem hittumst stundum á æfingum. Fyrir nokkru síðan birti hún mynd af fallega útstæðum maga sínum á facebook. Hugsanirnar sem flugu í gegnum hugann voru einhvernveginn á þessa leið: óóóó... svindl.... mig langar líka.... afhverju má hún verða ólétt en ekki ég... (auðvitað allt afar rökréttar hugsanir). Síðar kom í ljós að í bumbunni óx og dafnaði lítil dama. Mikið samgladdist ég henni! Alveg satt!
Fyrir mér hefur kynið ekki skipt svo miklu máli. Jú, vissulega væri gaman að eiga ljóshærða og freknótta dramadrottningu en fyrir mér hefur aðdráttaraflið snúist meira um upplifunina við að finna líf kvikna í móðurkviði. Fá að kynnast nýju og fallegu barni. Gefa brjóst.
Ljósmynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir
Sessunauturinn frá því í gær sagði að þeim hjónum hafi bara fundist það of freistandi að bæta einu við til að sleppa því... eitt, tvö, þrjú, fjögur eða fimm börn... hver er að telja?
Nú er mars senn á enda og marsbloggmaraþonið hefur verið frábært - það er SVO gaman að lesa skrifin þín!
ReplyDeleteViltu ekki teygja þetta markmið aðeins meira og hafa það líka í apríl?
Takk Harpa (ókunnuga)
DeleteÞessi mars var frábært spark í rassinn og áminning um hvað það er skemmtilegt að rasa út á blogginu. Ég ætla að halda áfram að skrifa... þó það verði ekki daglega... okey?