www.saypeople.com
Sjálfsagt var það spilið um auðmýkt (sjá færslu gærdagsins) sem hafði úrslitavald um að ég gæfi blóð í fyrsta sinn í dag ;o) ...já eða fréttir af slæmri birgðarstöðu Blóðbankans. Blóðgjöf hefur verið ofarlega á "to do listanum" mínum í mörg ár. Eitt af fjölmörgum verkefnum sem mig hefur langað til að koma í framkvæmd en einhvernveginn orðið útundan.
Fyrir rúmu ári fór ég í Blóðbankann til að kanna hvort ég væri hæfur gjafi. Það kom á óvart að blóðgjöf er langt frá því sjálfgefin. Annað sem ég vissi ekki þá var að mikið íbúfenát er ekki vel séð hjá þeim blóðgjöfum því þá er ekki hægt að nýta blóðflögur úr dýrmæta rauða vökvanum. Því þurfti ég í byrjun síðasta árs að fara í "pillumeðferð" því á þessum tímapunkti áttaði ég mig á að eitthvað þurfti að gera við vöðvabólgunni, sem þjakaði mig, annað en að bryðja bólgueyðandi lyf. Það gerði mér gott því ég fór í nudd, sjúkraþjálfun og til nálastungumeistara. Þegar ég svo mætti keik í bankann til að leggja inn blóð þá kom í ljós að nálastungur hjá öðrum en heilbrigðismenntuðum seinka blóðgjöf um 6 mánuði!
6 mánuðum seinna voru jólin yfirvofandi og stressvöðvabólgan komin á kreik með tilheyrandi íbúfenáti. Því seinkaði þessu þar til í dag.
Í dag var ég "þurr" af pillum og komst í gegnum nálarauga greiningarinnar. Blóðþrýstingur ljómandi góður. Lagðist á bekkinn og kreisti bolta. Fann svolítið fyrir stungunni. Svo beið ég bara í rólegheitum á meðan 450 ml. af lífsins safa lak úr mér í poka. Fékk mér síðan kökusneið og epladjús. Gekk glaðbeittari og ánægðari með lífið út um dyrnar en venjan er þegar gengið er út úr banka. Þjónustulund starfsfólksins hefði líka fengið hærri einkunn en hefðbundnir bankastarfsmenn.
Vonandi mun innistæða mín í þessum banka aukast í framtíðinni.
Vonandi mun ég aldrei þurfa á þessari gjöf að halda.
Sælla er að gefa en þiggja
Frábært framtak hjá þér Agnes. Nú verður þetta fastur liður á 4.mán fresti, ekki satt? Ég er búin að gefa 6 sinnum og fæ sms eða hringingar um leið og fjórir mánuðir eru liðnir.
ReplyDeleteJahá sælla er að gefa en þiggja.