March 31, 2012

Hvað má bjóða þér mörg?

 Ljósmynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir

"Það er eitt enn á leiðinni." sagði sessunautur minn í gærkvöldi. Svo bætti hann við "þetta er auðvitað bilun". Bilunin er að þau eiga von á fimmta barni sínu. Ég óskaði honum auðvitað hjartanlega til hamingju. Það er alltaf ánægjuefni þegar gott fólk eignast barn. Skiptir ekki öllu hvort barnið sé fyrst í röðinni eða það sjöunda.

Þegar ég lá á sængurkvennagangi eftir fæðingu þriðja drengsins míns var hjúkrunarfræðinemi þar sem ég kannaðist við. Sú átti þrjá drengi á sama aldri og ég. Hjúkkuneminn blikkaði mig og sagði að "stelpan kæmi bara næst hjá okkur". Ég var svosem alsæl með fallega þriðja drenginn minn. Fjórða meðgangan heillaði enda þótti mér óhugsandi á þessum tíma að síðasta meðgöngunni væri lokið. Eins og áður segir þá er ég sjúk í meðgöngu- og mjólkurhormóna.

Þegar frá líður verð ég stöðug sáttari við að eiga "bara" þrjár skyttur. Er þrír ekki heilög tala? Flesta daga vikunnar er viðráðanlegt að eiga þrjá óhemju lífsglaða drengi. Meðfram því langar lífsglöðu mömmunni að sjúga það sem mögulegt er útúr vist sinni á þessari jörðu. Stundum er snúið að ná að samræma það.

Hjúkkuneminn er útskrifuð og nú búum við í sömu sveit. Fótboltamömmur sem hittumst stundum á æfingum. Fyrir nokkru síðan birti hún mynd af fallega útstæðum maga sínum á facebook. Hugsanirnar sem flugu í gegnum hugann voru einhvernveginn á þessa leið: óóóó... svindl.... mig langar líka.... afhverju má hún verða ólétt en ekki ég... (auðvitað allt afar rökréttar hugsanir). Síðar kom í ljós að í bumbunni óx og dafnaði lítil dama. Mikið samgladdist ég henni! Alveg satt!

Fyrir mér hefur kynið ekki skipt svo miklu máli. Jú, vissulega væri gaman að eiga ljóshærða og freknótta dramadrottningu en fyrir mér hefur aðdráttaraflið snúist meira um upplifunina við að finna líf kvikna í móðurkviði. Fá að kynnast nýju og fallegu barni. Gefa brjóst.

Ljósmynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir

Sessunauturinn frá því í gær sagði að þeim hjónum hafi bara fundist það of freistandi að bæta einu við til að sleppa því... eitt, tvö, þrjú, fjögur eða fimm börn... hver er að telja?

Frú Félagslíf

Það eru til sumir dagar og svo eru til SUMIR dagar. Lífið er svo sannarlega viðburðarríkt þessa dagana. Núna er ég á síðustu mínútunum að hamra inn dreka-bloggfærslu dagsins.

Ljósmynd: Tinna Stefánsdóttir

Við fengum gesti í kvöld. Ferðafélaga í jeppahópi sem fór yfir hálendið um síðustu helgi. Marga var ég að hitta í fyrsta sinn aðra hef ég þekkti í langan tíma. Notaleg kvöldstund. Tilefnið var að hópurinn ætlaði að klippa saman vídeomynd um ferðalagið yfir miðhálendið og inná Mývatn og svipaða leið til baka.

Ég hef haft margt á minni könnu síðustu viku. Ábyrgð á bekkjarskemmtun hjá skólastráknum var á mínum herðum. Ýmsir snúningar tengdust því að halda páskabingó fyrir 4. bekk og fjölskyldur. Bingóið var svo í gær og tókst prýðisvel. Svo sá mín deild um mánaðarlega átveislu í vinnunni og metnaðarfull fyrrverandi heimavinnandi húsmóðir leggur sál sína í slíkar kökuboð.  Í eldhúsinu voru bakaðar stríðstertur hér í gærdag eins og karakter minn væri metin að verðleikum eftir gæðum veitinganna. Á milli bingós og baksturs fór ég á stórfenglega tónleika hjá vinkonu minni.

Mitt í þessari dagskrá nefndi minn heittelskaði að nokkrir jeppakarlar ætluðu að kíkja eftir vinnu til að vinna í þessu myndbandi og kannski skella nokkrum kótelettum á grillið í leiðinni.

Ég andaði inn og rólega út. Brosti.

Sagði svo að það væri ljómandi en það mætti ekki búast við mikilli aðstoð af minni hálfu. Það lægi ýmislegt fyrir þennan föstudag. Hann sagði; "Jájá, hafðu engar áhyggjur ég redda þessu. Þetta verða kannski svona 20 manns. Þeir koma með konurnar sínar með. Þetta verðu bara gaman"

Ég andaði inn og rólega út. Brosti.

Í kvöld stóð hann við grillið úti á palli og snéri við kjötinu. Býsna ánægður með sig. Ég sá um sósuna, kartöflurnar og salatið. Nú er byrjað að vinna við myndbandið og ég velti fyrir mér hver eigi að sjá um uppvaskið...

March 29, 2012

Ef ég ætti töfrasprota...

Nú eru ávaxtatréin í blóma í "heitu löndunum". Kirsuberjatréin skarta sínu fegursta. Tvisvar hef ég upplifað þá fegurð. Fyrst í Bandaríkjunum og síðan í Kaupmannahöfn. Það er svo fallegt.

Mynd: www.hitherandthither.net

Þannig að ef ég ætti töfrasprota þá myndi ég ekki bara redda gengi krónunnar, hreinsa andrúmsloftið og höfin af mengun, leysa stríðshörmunar heimsins heldur myndi ég líka veifa honum mér til gleði og ánægju. Þannig gæti ég, fyrir töfra, verið komin í fallegann garð fullann af trjáum sem skörtuðu hvítum og bleikum blómum... og ég væri auðvitað líka sjúkt mjó og með sítt þykkt hár ;o)

Mynd: www.hitherandthither.net

Annars vaknaði ég í morgun við fuglasöng. Ekki lóusöng reyndar. Líklega starri að herma eftir gsm símahringingu. Svo vorið er sannarlega að bresta á með söng.

March 28, 2012

Góða nótt

Ef það er eitthvað í þessu heimi sem ég trúi á þá er það máttur svefnsins. Þess vegna þykir mér vænt um háttatímann. Reyndar dregst hann oft á langinn hjá okkur. Svo mikið er nostrað við að koma bræðrunum í svefninn.


Fyrir þeim er nauðsynlegt að enda daginn á sama stað og hann hófst. Í móðurskipinu... mömmurúmi... þar sem allir góðu draumarnir halda sig í niðdimmri nóttunni. Stundum lesum við fyrir háttinn og stundum horfum við á nokkra Tomma&Jenna þætti á youtube. Þeir eru óþreytandi á að biðja um "einn í viðbót". Því næst færum við okkur inní þeirra eigin herbergi. Því er alltaf mótmælt! Samt sætta þeir sig við það á endanum.


Stóri strákurinn fær upplestur á Harry Potter. Það er nú meira hvað sá bókaflokkur er langur. Við vorum í hálft ár með síðustu bókina sem við lásum. Þegar við verðum búin að komast í gegnum allar 7 bækurnar verður komin tími til að byrja lesturinn að nýju fyrir yngri bræðurna...


Faðir vor og Sitji guðs englar fá svo að vernda drengina yfir nóttina... alveg þar til hlýjir mjúkir kroppar vakna að nýju og skríða undir sæng hjá mömmu eða pabba.

Góða nótt

March 27, 2012

TED

Ein mesta snilldin á veraldarvefnum er heimasíðan ted.com - þetta eru fyrirlestara ýmissa fremstu fræðimanna, pólitíkusa, listamanna, hönnuða og snillinga samtímans. Að gleyma sér á ted.com jafnast á við að detta inná háskólafyrirlestra. Þarna er ótrúlega margt áhugavert og annað sem mér finnst vera of flókið eða sérhæft fyrir mig. Flestir fyrirlesarar eru alveg stórskemmtilegir.

 Hér fyrir neðan eru linkar á nokkra af mínum uppáhalds:

Brené Brown: The power of vulnerability 

Hún talar um mátt einlægninar. Þeir sem leyfa sér að vera viðkvæmir og tilfinningalega opnir eru í raun margfalt sterkari en "hin þögla sterka" týpa - Halelúja!  Brené er skemmtilegur félagsfræðingur, og nýlega bættist við nýr fyrirlestur á ted þar sem hún talar um skömmina (shame)

Nigel Marsh: How to make work-life balance work

Fyndinn fyrirlesari sem fjallar á skemmtilegan hátt um vanda hverrar nútímamanneskju við að ná tökum á jafnvægislistinni á milli heimilis og vinnulífs.

Elizabeth Gilbert on nurturing creativity

Höfundur Eat, pray, love... 

Ken Robinson says schools kill creativity

Já, amen! Skemmtilegur fyrirlestur. Fyndinn. Skylduáhorf fyrir alla sem vinna í skólakerfinu ;o)

Steve Jobs: How to live before you die

Einlæg ræða frá iMeistaranum sjálfum. Þarna nær hann aldeilis að greina hismið frá kjarnanum!

Dan Gilbert asks, Why are we happy?

Hamingjan er furðulegt fyrirbæri og honum tekst að skýra á skemmtilegan hátt hversu "einfalt" er að höndla lífshamingjuna. 

Susan Cain: The power of introverts

Holl og góð áminning fyrir okkur skellibjöllurnar að bera virðingu fyrir innhverfa fólkinu. Skemmtileg pæling. 

Liza Donnelly: Drawing on humor for change

Blaðateiknari sem notar myndir sínar til að ýta við fólki. Með húmor getum við breytt viðhorfi fólks. Mikið af myndum sýndar.

Halla Tomasdottir: A feminine response to Iceland's financial crash

Ísland já takk! Meiri valkyrjan sem hún Halla er og fremst meðal kvenna. 

Malcolm Gladwell on spaghetti sauce

Gladwell er snillingur. Punktur. (eða komma), því þeir sem hafa lesið Blink og Outliers ættu að kíkja á þetta líka.

Svo næst þegar þið eruð búin að fara hringinn á facebook 3x án þess að neitt nýtt sé að gera hjá vinum ykkar ættu þið að setjast á skólabekk og hlusta á fólkið sem mótar ríkjandi hugmyndarfræði nútímans. 

Góða skemmtun

 

 

 

 

 

March 26, 2012

Mömmublús

Klisja 1: móðurhlutverkið er best í heimi
Klisja 2: móðurhlutverkið er vanþakklátasta starf í heimi

Merkilegt hvað mikið sannleikskorn er í öllum heimsins klisjum.



Blíðlyndi og ljúfi frumburðurinn tók kast á mömmu sína í morgun. Hún svaraði fyrir sig. Bæði mættu grátbólgin í skólann í morgun. Gaman að þessu. Hann er ekki sá fyrsti í sögu mannkyns sem gerir móður sína ábyrga fyrir öllu því sem illa fer í heiminum. Hún er ekki sú fyrsta sem finnst allt hennar erfiði og fórnir vera lítt metnar. Jamm og já.

Marineruð í sjálfsvorkun hef ég velt því fyrir mér í allan dag hvers vegna í ósköpunum pabbinn fái allt kreditið og mamman allar skammirnar. Mömmur eru svolítið eins og rúgbrauð... næringarríkar og hversdagslegar á meðan pabbar eru eins og súkkulaðitertur... ljúffengir og sparí. 

Bitur? Ég? Ekki séns!!!

March 24, 2012

We can´t all reach goals in life...


Finnst ykkur þetta ekki æðisleg auglýsingarherferð?
Það finnst mér að minnsta kosti.

Í fyrsta lagi er málstaðurinn góður. Hugmyndafræðin að baki ólympíuleika fatlaðra er afar falleg. Andi ólympíuleikanna, þe. að þátttakan sé mikilvægari en sigurinn, er tærari á þessum ólympíuleikum en á meðal atvinnumannanna á "alvöru" ólympíuleikunum.

Í öðru lagi finnst mér íþróttamaðurinn á myndinni óendanlega flottur. Ljósmyndin er í einhverskonar hetjustíl. Fílaða. Hann Jóhann Fannar er flottur íþróttamaður. Ætli foreldrum hans hafi grunað það þegar þau héldu á honum í fyrsta sinn að hann myndi keppa fyrir Íslands hönd á ólympíuleikum? Kannski?

Í þriðja lagi er slagorðið algjörlega frábær. Það ná ekki allir settu marki í lífinu heldur aðeins þeir sem setja sér markmið. Er þetta ekki eitthvað sem allir geta verið sammála um? Að setja sér markmið er til alls fyrst. Hvort sem þú ætlar á ólympíuleikana eða ekki. Markmið eru í sjálfu sér ekki lykillinn að lífshamingjunni en mikið sem það er gott að ná takmarki sem maður hefur lengi unnið að. Staðreyndin er sú að útsýnið af toppi Úlfarsfells er betra hjá þeim sem ganga þangað upp sjálfir en hjá þeim sem keyra uppá topp.

March 23, 2012

Lífið er ljúft

 Ljósmynd: Agnes Ósk (Crater lake í Oregon USA)

100 hlutir sem gera mig hamingjusama:
(Þeir eru ekki raðaðir eftir mikilvægi og ekki er hægt að nefna allt það góða fólk sem mér þykir svo fjarska vænt um)
  1. Súkkulaði
  2. Göngutúr í logni og rigningarúða
  3. Vel lagaður Cafe Latte
  4. Mamma & pabbi
  5. Lambalærið hennar tengdamömmu
  6. Að stinga sér í sundlaug
  7. Að standa á fjallstoppi
  8. Systur mínar
  9. Ph lampinn sem "ég" fékk í brúðargjöf
  10. Að fara í berjamó
  11. Bergur 
  12. Trausti
  13. Logi 
  14. Bjartur
  15. Súkkulaði með hnetum
  16. Fuji epli
  17. Kvennaskóla-zaumó
  18. Að kæla sveittar tær í ferskri fjallalind
  19. Baksturslykt
  20. Æskuvinkonurnar úr Breiðholtinu
  21. Rúmið mitt
  22. Að hengja þvott útá snúru
  23. Jólatréið í stofunni heima
  24. Amma Sísí
  25. Amma Alla
  26. Að vakna á morgnanna við að hlýjir litlir kroppar skríða uppí mömmurúm
  27. Að elda góðan mat
  28. Að leggjast uppí sófa á kvöldin eftir háttatíma strákanna.
  29. Fuglasöngur
  30. Sveitarsælan í Aðaldalnum
  31. Að fylgjast með Trausta í leik með vinum sínum
  32. Dirty Dancing
  33. Að horfa á Berg keppa í handbolta
  34. Ástarjátningar sona minna
  35. Tengdamamma
  36. Að hlaupa
  37. Að renna mér á skíðum
  38. Þegar Bjartur kemur mér á óvart
  39. Að koma heim í ilmandi hreint hús
  40. Óteljandi hlutir sem Logi gerir daglega.... hann er hamingjuhlunkurinn minn
  41. Að sitja í flugvél og geta ekkert gert nema velja á milli hvítvíns og rauðvíns
  42. Að ganga niður Laugarveginn
  43. Nebbakoss frá Trausta
  44. Lyktin af nýfæddum börnum
  45. Nýfædd börn
  46. Að finna fyrir hreyfingum barna í móðurkviði
  47. Að gefa brjóst
  48. Að leggjast í heitt bað, hlusta á góða tónlist og kveika á kertum
  49. Að halda partý
  50. Sundsprettur
  51. Rjómapiparostasveppasóða sósan mín
  52. Að fara í fjallgöngu með Bjarti
  53. Fá gesti í heimsókn
  54. Að svæfa strákana mína
  55. Að sleppa því að svæfa strákana mína
  56. Grasekkjurnar mínar
  57. Að koma í framkvæmd hlutum sem ég hef frestað of lengi
  58. Þegar barn sofnar í fanginu mínu
  59. Endorfín víman eftir gott "workout"
  60. Jarðaber, AB mjólk, hunang og musli
  61. Að lesa Harry Potter fyrir Berg
  62. Þegar ég er ánægð með spegilmynd mína
  63. Að gráta þegar ég er úrvinda af þreytu
  64. Þegar maðurinn minn klípir í mig
  65. Útipúl og Kerrupúl í Laugardalnum
  66. Að klæða strákana mína í falleg föt
  67. Að kynnast nýju og skemmtilegu fólki
  68. Lyktin af rakspíranum hans Bjarts
  69. Krækiber, sykur og þeyttur rjómi
  70. Að synda
  71. Pönnukökurnar hennar Láru
  72. Að horfa á strákana mína leika sér fallega saman
  73. Frímínútur; ein á bókakaffihúsi með gott kaffi í bolla
  74. Jólamandarínur
  75. Fyrsti sopinn af ísköldum bjór
  76. Að sjá kirsuberjatré í bleikum blóma á vorin
  77. Tin Tin plakötin mín
  78. Lyktin af útlöndum
  79. Þegar synir mínir horfa á mig fullir af aðdáun (geymi þær stundir vandlega í hjarta mínu því þær munu hverfa... allavega um tíma)
  80. Að koma inná flugstöð Leifs Eiríkssonar
  81. Þegar fólk kvittar á heimasíðuna mína ;o) 
  82. Að fá stóran vönd af rauðum rósum
  83. Að leggja af stað í ferðalag með fullan bíl af börnum og búnaði
  84. Að leggjast í heita náttúrulaug
  85. Vel orðaðar setningar sem eru þrungnar af merkingu
  86. Að hlæja þar til mér verkjar
  87. Þegar RÚV hringir inn jólin á aðfangadag
  88. Að hjóla
  89. Giftingahringurinn minn
  90. Að tárast af hamingju
  91. Þegar góðir hlutir gerast fyrir fólk sem mér þykir vænt um
  92. Tilfinningaþrungin tónlist
  93. Mjúkur og heitur koss
  94. Hamborgarahryggur á aðfangadag
  95. Að sofna eftir viðburðarríkan og góðan dag
  96. Súkkulaði með lakkrís
  97. Að mæta í vinnuna
  98. Að stimpla mig útúr vinnunni
  99. Að vera líkamlega hraust
  100. Þakklæti yfir allt það góða sem í lífi mínu er

Þetta er hollt og gott fyrir sálartetrið. Mæli með því að þið gerið þetta líka. Það er nauðsynlegt að minna sig stundum á hvað lífið er dásamlegt!!!!

March 22, 2012

Fiskisúpa og spæjarar


Í bílnum hlustum við þessa dagana á útvarpsleikritið "Með öðrum morðum" í flutningi Harrýs & Heimis. Þeir eru stórskemmtilegir og við Bergur hlæjum okkur máttlaus. Ungu mennirnir ná ekki öllum orðaleikjunum.
Í hverjum þætti kemur illræmd fiskisúpa til sögunnar. Þessir þættir höfðu afar neikvæð áhrif á viðhorf mitt til fiskisúpu lengi framan af. Líklega hef ég verið búin að steingleyma spæjurunum óborganlegu þegar ég loks tók ástfóstri við fiskisúpuna mína góðu.

Nýlega var afmæli hér á bæ þar sem hún var í boði. Grýlupotturinn minn tæmdist ofan í sátta mallakúta. Uppskriftin er ekki nákvæm en samt einhvernvegin svona:
  • Grænmeti (laukur, púrrulaukur, sellerí, paprika og gulrætur) steikt í olíu
  • 1 líter vatn
  • 2 dósir af kókosmjólk
  • 2 dósir af tómötum, má gjarnan vera með hvítlauk eða basil
  • 2-3 msk. karrýmauk
  • 3-4 msk. Heinz chilli sósa, má líka vera tacosósa
  • Fiskur eftir smekk, t.d. lúða, lax, hlýri, steinbítur, skötuselur - bæta fiskinum útí ca. 5-10 mín áður en súpan er borin fram
  • Svo geta gestirnir bætt úta diskinn sinn rjómaslettu og/eða ferskum koriander

    Nammigott!

    En ef þið hafið engan áhuga á fiskisúpum má reyndar líka smella hér og hlusta á brot úr svakamálaleikritinu "Morð fyrir tvo"

    Bon apetit...

    March 21, 2012

    Pinterest


    ómægod... facebook fíkillinn er búin að finna svolítið svakalegra en að "hanga á línunni í sveitasímanum" - Pinterest! Þetta er algjört ÆÐI!

    Frú Dreki þarf nú aldeilis að passa uppá tímastjórnunina ef hún ætlar ekki bara að ganga í efnasamband við tölvuna á næstunni. Allar þessar myndir og hugmyndir... eru þið að djóka í mér!

    Er ekki alveg búin að fatta hvernig þetta virkar né út á hvað þetta gengur en heillandi er það. Mun liggja í þessu á næstunni til að skilja að þetta var einmitt það sem mig vantaði í líf mitt ;o)

    Neysluhvetjandi fyrirbæri í meira lagi, reyndar. En hey, hvaða skemmtilegheit eru það ekki?

    Okeybæ... verð að fara að"pinna" eitthvað

    ps. takk fyrir allar fallegu kveðjurnar, þykir svo rosa svaka mikið vænt um þær

    March 20, 2012

    Við erum ekki öll eins

    Ljósmynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir
    Þessi mynd var tekin af okkur Trausta í júní 2007. Þrátt fyrir slæmt orðspor sem fer af árinu 2007 þá er það eitt það allra besta sem ég hef lifað. Ef hamingjuhormónin sem flæddu um þennan freknótta kropp, á þessum tíma, fengjust í sprautuformi myndi ég vera sprautufíkill. Fallegi strákurinn minn sem var svo velkominn í þennan heim.

    Hann hefur kennt mér svo ótrúlega margt á síðustu 5 árum að stundum finnst mér að hann hafi gengið með mig fremur en ég með hann. Allavega. Naflastrengurinn okkar á milli er sterkur. Tilfinningaskalinn sem miðjustrákurinn minn hefur kynnt fyrir dramatískri móður sinni er ansi víðáttumikill.

    Í gær sá ég umfjöllun Íslands í dag um einhverfu. Þar var viðtal við móður drengs á einhverfurófinu. Mér fannst hún hugrökk. Ég er henni og öllum þakklát sem tala um einhverfu einstaklingana í lífi sínu. Í hvert sinn sem ég fylgist með foreldri tala um einhverfa barnið sitt heyri ég sama titringinn í raddböndunum, stoltið í augunum og væntumþykjuljómann sem stafar af því.

    Í hvert sinn sem kastljósinu er beint í þessa átt má sjá margbreytileikann í mannlífinu. Einhverfa er svo margt og svo mismunandi. Hún skilgreinir ekki manneskjuna, ekki frekar en háralitur hennar. Flestir sem hafa einhverfugreiningu lifa innihaldsríku lífi. Þeim þykir vænt um fólkið sitt og virðir vináttuna jafn mikils og við hin.

    Þessi börn vinna svo marga sigra. Með góðri þjálfun og atlæti geta þau náð miklum árangri. Þau skynja heiminn með öðrum hætti en við "venjulega fólkið". Það er styrkur þeirra.

    Það gæti komið sumum á óvart en þetta eru börnin sem gera foreldra sína stoltasta!

    Ljósmynd: Tinna Stefánsdóttir

    Fyrir áhugasama:


    March 19, 2012

    New York, I Love You


    Var að horfa á þessa frábæru bíómynd. Hún er samsett af mörgum sögum sem allar gerast í New York. Leikaraliðið er magnað. Sýnir margbreytileika stórborgarinnar. Myndin æsti uppí mér New York veikina sem ég er með þessa dagana. 

    Smelltu hér til að sjá sýnishorn úr myndinni. 

    March 18, 2012

    Bullumsull

    ljósmynd: wedding-birthday-cakes.blogspot.com

    Merkilegt hvernig konu tekst að lifa hamingjusöm án sætinda í heilan mánuð og geta síðan ekki haft neina stjórn á sykurpúkanum þann næsta. Óþolandi. Ég trúði því svo innilega að hægt væri að lifa í sátt og samlyndi við sykurpúkann ógurlega... helvítis helvíti. Alkaeinkenni?

    Annars bara góð helgi ogsvona... Fengum frændfólk í hádegismat, fórum í 2ja ára stórafmæli, áttum ljúft kósýkvöld í sófanum, gengum stóran hring um Hólmsheiði með ofvirku móðurfjölskyldu minni, sofnaði með minnsta manni og borðuðum á okkur gat í fermingarveislu.

    Komst þó ekki yfir mannhæðarháa þvottahrúgu né að sinna verkefnum foreldrafélaganna beggja sem ég er í og ætlaði að haka við á "to do - listanum" ... var of upptekin við að borða kökur ;o)



    March 17, 2012

    Hvað svo?

     ljósmynd: http://www.rlnaquin.com

    Nú er mars rúmlega hálfnaður og mig vantar markmið fyrir apríl. Drekaárið var sko ekki beinlínis skipulagt í þaula og sett uppí excel skjal. Hvað væri sniðugt að takast á við í næsta mánuði?

    • Forrækta eða koma til matjurtagarði?
    • Sleppa að borða brauð í mánuð?
    • Ganga á Esjuna annan hvorn dag allan mánuðinn?
    • Gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum?
    • Vera með rautt hár í mánuð?
    • Stofna fyrirtæki?
    • Sleppa öllum heimilistörfum?
    • Nota einkabílinn ekki nema um helgar?
    • Hlaupa daglega?
    • Skrifa bók?
    • Sleppa því að þvo hárið með sjampói?
    • Læra hugleiðslu?
    • Prjóna peysu?
    • Laga til í öllum geymslurýmum heimilisins?
    • Komast í spíkat?

    Ef þið eruð með góða hugmynd að viðfangsefni þá væri það vel þegið ;o) 

    March 16, 2012

    Lóan er komin

    Lóan fékk far frá Eyrarbakka til Reykjavíkur í dag. Skapari hennar skutlaði henni og afhenti mér. Lóan er eftirlætis fuglinn minn. Hún er svo látlaus en falleg. Syngur fallega og boðar vorkomuna.

    Það væri ekki fallegt að veiða eina lóu yfir sumartímann og geyma í búri heima hjá sér. Dirrindíið hennar myndi missa gleði sína. Koma lóunnar er lík komu jólasveinanna. Hún á sinn tíma og ætti ekki að vera árið um kring. Þrátt fyrir það hefur mig lengi langað í mína eigin lóu.

    Fyrir jólin varð ég friðlaus þegar ég sá lóu í búð. Hún var ekki til sölu heldur gjöf frá listamanninum sem tálgar hana til búðareigandans. Þarna var hún komin jólagjöfin sem "spóinn" minn vantaði að gefa mér. Svo ég hafði samband við Hafþór og lagði inn pöntun. Í desember geðveikinni var ekki séns að fá fugla af stærri gerðinni fyrr en á nýju ári.

    Í dag fékk ég loks gjöfina mína og get ekki verið glaðari.

    3 fuglaskoðarar þóttu mikið til gripsins koma.

    Sá skynsami sagði: "Vá flottur fugl, þetta verður þá bara næsta afmælisgjöfin þín"
    Sá ljóðræni sagði: "Lóa - góa, það rímar"
    Rannsóknarmaðurinn sagði: "Mamma, það vantar vængina á fuglinn"

    ...samkvæmt vísindavefnum kemur heiðlóan oftast til landsins á tímabilinu 20.mars til 29. mars ;o) Það styttist því í að móinn minn fari fljótt að syngja dirrindííí.

    March 15, 2012

    Vinaboð

    Við fengum vini í mat áðan. Saman eigum við 8 stráka og enga stelpu! Karlrembuvinir ;o) Það er alltaf notalegt að hittast. Strákastóðið lék saman og fullorðna fólkið spjallaði.


    Annars trúði ég því í dag að vorið væri komið. Hvílíkt sem það léttir lund að leika úti í "góða veðrinu".


    Í matinn var kjúklingur í anda Jamie Olivers, rótargrænmeti, salat og piparostarjómasveppasóðasósan mín... slurp hvað það var gott.

    Það var stuð enda 8 einstaklingar undir tíu ára aldri. Það eru samt að verða breyting á  borðhaldinu, eftir því sem drengirnir eldast vera þeir meiri þátttakendur. Þeir stóru skiptust á að segja okkur brandara sem byrjuðu þannig: "Það var einu sinni Hafnfirðingur, Reykvíkingur og Garðbæingur..." Okkur fannst þeir fyndnir!




    Það er þó gaman að hafa litla kúta með líka. Hvílík endemis sjarmatröll!

    Yndislegir litlir labbakútar og ekki eru mútturnar síðri.

    Gestirnir buðu uppá páskaegg í eftirrétt og úr einu egginu kom málsháttur sem ætlaður var mér... þó hann hafi tæknilega klakst úr annarra eggi ;o)

    March 14, 2012

    Fýlupóstur

    Vegna þess að ég er illa sofinn, þreytt og þrútinn er við hæfi að pirrast aðeins. Mér er búið að vera kalt í dag og get ekki beðið eftir að leggjast í rúmið og svífa inní draumalandið. Vissulega er skemmtilegra að vera jákvæð og auðmjúk alla fjandans daga en þetta er ekki slíkur dagur

    Gjörið svo vel og njótið pirringsins:
    • Danski þátturinn Borgen sem sýndur er á sunnudagskvöldum er ágætur. Hins vegar finnst mér óþolandi bjánalegt að forsetisráðherrann skuli ekki hafa annað hvort au-pair eða heimavinnandi karl. Það er bara engan veginn sannfærandi að hún þurfi að færa til fundi til að geta sótt börnin í skólann. Hugmyndin er auðvitað sú að sýna konu í krefjandi starfi sem þarf að miðla málum á milli framans og heimilisins. Gott og vel. Hins vegar finnst mér nálgunin í þáttunum myndi ganga betur upp ef hún væri ekki valdamesta kona Danmerkur (á eftir Margréti Þórhildi?)!
    • Sama flík í sömu stærð (S-M-L) sem eru misstórar. Þegar ég finn flík sem ég fíla á ég það til að kaupa nokkur eintök. Fyrir skömmu féll ég fyrir hlýrabolum í Selected. Ekkert merkileg flík þannig lagað, en ég geng flesta daga í hlýrabolum innanundir. Svo nú á ég samskonar bol í sömu stærð í 4 litum. Nema hvað að hver litur hefur sína stærð. Það sama gerðist svo þegar maðurinn minn keypti eftir leiðbeiningum 2 einfalda bómullarboli úr H&M samskonar og ég á nú þegar. Hver litur eru af sinni stærð... hvar í helv. er gæðaeftirlitið???? ÓÞOLANDI!
    • Hvers vegna í ósköpunum er það sem ég ætla að kaupa í IKEA "ekki til en væntanlegt"? 
    • Eru þið að djóka með ástandið á klósettinu heima hjá mér... ég bý með fjórum spottum... say no more!
    • Ég bauð umfram "Karólínum" ekki með uppí sumarbústað um helgina. Finnst þessar hitaeiningar helst til uppáþrengjandi.
    Jebb, það eru stóru málin sem angra frúnna. Ekki fáránlegt bensínverð, skrípaleikur í Landsdómi, hugsanlega yfirvofandi annað bankahrun, aukin framlengd gjaldeyrishöft, Facebook statusar hjá þingmönnum alþingis, skortur á forsetaframbjóðendum né dularfull verðhækkun í Bónus daginn áður en helgartiboðin birtast í Fréttablaðinu.

    Neibb... engin réttlát reiði hér á bæ bara raunveruleg vandamál ;o)

    Pollýönnukveðja

    March 13, 2012

    Notalegur þriðjudagur

    Ljósmynd: Latte Lisa

    Það er lúxus að vinna hlutastarf. Eftir að hafa verið heimavinnandi í nokkurn tíma þótti mér ótrúlega erfitt að mæta til vinnu 5 daga vikunnar en það vandist. Núna finnst mér það dásamlegt að koma heim til mín eftir 5 tíma vinnudag og njóta þagnarinnar ein með sjálfri mér. Yfirleitt tekur við dagskrá að vinnudegi loknum. Áður en litlir kútar eru sóttir í leikskólann þarf að kaupa í matinn, útrétta, vinna á þvottahrúgunni, skutla miðlungnum máttuga í ýmis æfingarprógrömm, hitta vinkonur eða sprikla í ræktinni.

    Þess vegna fannst mér það hreinn unaður að koma heim í dag og gera ekkert í 2 klukkutíma áður en strákarnir yrðu sóttir í leikskólann og síðdegisfjörið hæfist. Ég lagðist uppí sófa, skoðaði blöð og hlustaði á tónlist. Úti gekk á með éljum og ég horfði útum gluggann innan úr hlýjunni.

    Þegar Villingur og Tryllingur voru komnir heim úr leikskóla bökuðum við eplamúffins eftir uppskrift á síðu Latte Lísu sjá hér. Reyndar mislas ég sykurmagnið og tvöfaldaði það... það skaðaði bragðið ekki ;o) Óboy óboy... hvað sykurpúkinn er að ná yfirhöndinni um þessar mundir... en það er efni í aðra dagbókarfærslu.


    ps. annars sé ég að traffíkin á síðuna hefur aukist mikið. Það er auðvitað rosalega gaman. Ég breytti líka einhverjum stillingum svo nú ætti að vera auðveldara að kommenta á síðuna. Það myndi gleðja mikið.

    March 12, 2012

    JSB

     
     ljósmynd: www.facebook.com/danslistarskoli.jsb

    Þar ólst ég upp. Lærði að fullkomna splittstökkið og að rétta fullkomlega úr ristinni. Síðar fór ég sjálf að kenna þarna. Hætti vegna anna á öðrum vígstöðvum. Mætti þó í tíma og fór á námskeið. Þó kom að því að mig langaði að sletta úr klaufunum og njóta alls hins sem aðrir kroppatemjarar hafa uppá að bjóða. Ég eeelska að hreyfa mig og finnst gaman að prófa allskonar tíma og hugmyndafræði.

    Stundum fékk ég heimþrá og nú í byrjun árs endurnýjaði ég kynnin við uppeldisstöðina. Mætti í tíma til stelpna sem ég áður dansaði með. Strax í fyrsta tíma fann ég að ég var komin heim! Þarna meikar allt sens. Passað er uppá líkamsstöðu og allir gera æfingar í takt.

    Síðustu viku tókst mér ekki að mæta. Þurfti að rækta mitt innra hreindýr einn daginn og þreif húsið. Miðlungurinn þurfti svo að mæta til talþjálfunar og iðjuþjálfunar sitthvorn daginn. Stóri strákurinn fékk magapest. Loks fórum við útur bænum á föstudag. Stundum verður að forgangsraða á kostnað hreyfingar. Svo mætti ég eftir vinnu og fékk útrás. Notalegt að fá hvatningu...nú eða skömm í hattinn frá kennurum sem kenndu mér jazzhopp og pique hringi fyrir fáránlega mörgum árum síðan. Takk stelpur þið eruð ÆÐI!!!

       ljósmynd: www.facebook.com/danslistarskoli.jsb

    March 11, 2012

    Vetrarbústaður


    Helginni var eytt í Biskupstungum. Við fengum að leigu bústað. Veðrið var ekkert spes og við kúrðum mikið uppí sófa. Lásum, prjónuðum, spiluðum, horfðum á sjónvarpið og elduðum góðan mat auk þess sem heiti potturinn var vinsæll.

    Mamma og pabbi komu á laugardag og gistu eina nótt. Strákarnir voru alsælir með þann félagsskap.

    Hefði veðrið verið betra þá myndi ég birta fallegar myndir af vetrarríkinu sem ríkti þegar við komum á föstudag áður en það byrjaði að snjóa, svo kom þoka og loks rigndi. Við hefðum gengið á fjöll, byggt snjóhús og og og...

    Það var þó yndislegt að liggja í leti heila helgi. Allt ferska sveitaloftið gerir mig svo syfjaða og því eru myndir af sófakartöflum sem fíluðu að gera lítið sem ekkert í tvo sólarhringa.

    Óeirðalöggurnar gerðu húsleit.


    Sófakartöflur á laugardagsmorgni 
     
    Spilastund
    Strákarnar busluðu í pottinum í marga klukkutíma
    Snjór og vetur

    Líklega kraftaverk að strumpastrætóinn dreif alla leið að bústaðnum
    Það er fullt starf að halda lífi í þeim yngsta í svona sundferð

    Stóri og sæti strákurinn

    Matur og tölvur og símar og tölvur... æskan nú til dags (Bergur spilaði þó skák í tölvunni)
    Krúttið úr fókus en amman helslök í bakgrunni með hvítt í glasi
    Sunnudagsmatur úr afgöngum og svo auðvitað íslenskt lambakjöt, sósa og sulta ;o)