Suma daga óska ég mér þess af öllu hjarta að ég ætti töfrasprota og með einni hókus pókus sveiflu myndu synir mínir vera komnir uppí rúm baðaðir, tannburstaðir, lesnir og (lykilatriði) sofnaðir. Það er samt með háttatímann, eins og önnur óumflýjanleg verkefni, mikilvægt að þykja vænt um hann.
Háttatíminn er álagstími á fjölskyldur. Allar heimsins uppeldisbækur benda á mikilvægi þess að háttatíminn sé í föstum skorðum, bæði með tilliti til klukkunnar og rútínu fyrir háttinn. Með því að halda blíðum járnaga á afkvæmum okkar veitum við þeim öryggi. Barn sem nær ekki góðum nætursvefni er pirrað og þreytt næsta dag. Alveg eins og við hin.
Strákarnir mínir eru ólíkir og það á við um viðhorf þeirra til þess að fara að sofa. Logi hreinlega biður um að fara að sofa á kvöldin. Bergur rígheldur í rútínu fyrir háttinn, jafnvel þó hann sé orðin 10 ára. Yfirleitt er hann sofnaður á núll einni. Trausta er hins vegar meinilla við háttatímann og að sofa yfir höfuð. Hann þarf minni svefn en bræður sínir og verandi þrjóskari en flestir þá þarf að dekstra hann í svefn.
Í haust átti Trausti óvenjulega erfitt með að festa svefn. Hann fékk martraðir í tvígang og svo virtist sem hann óttaðist að sofna og missa þannig tökin á veruleikanum. Þá greip ég til þess ráðs að spila slökunartónlist (svona snyrtistofu-/nuddstofutónlist) og við það nær hann að slaka á og sofna.
Slökunardiskinn fékk ég í jólagjöf frá vinkonu minni þegar ég gekk með Trausta. Diskurinn er tvískiptur, annars vegar hefðbundin slökunardiskur sem er ætlaður mömmunni og hins vegar vögguvísur með slökunartónlist undir, ætlaður barninu. Fyrst setti ég vögguvísurnar á og það virkaði ekki betur en svo að drengurinn með svefnvandann sat í rúminu sínu og fylgdist með númer hvað lagið var sem verið var að spila. Þannig kíkti ég inn til hans reglulega og fékk að vita hvaða lag væri í gangi hverju sinni. Þá skipti ég yfir í hefðbundna diskinn fyrir mömmuna ;o)
Eftir langan og erilsaman dag þrái ég að hlamma mér í sófann, horfa á hæfilega heilalaust sjónvarpsefni og eiga korter fyrir sjálfa mig áður en ég sofna. Verandi frekar þreytt týpa sem trúir á mátt svefnsins við flestum vandamálum þá er þessi "me-time" fremur stuttur. Það er freistandi að reyna að stytta sér leið í háttatímanum. Mín reynsla er þó sú að í 90% tilfella er betra að gefa sér tíma til að sinna því vel.
Þetta er sá tími dagsins sem auðveldast er að eiga "one-to one" tíma með barninu sínu. Það er notalegt að liggja með mjúkum og hlýjum kroppi og lesa bók. Ég nota háttatímann gjarnan til málörvunar (rím, setja saman orð, andstæður) eða til að kenna þeim nöfn á líkamshlutum (smá inside infó: börn eru spurð um hvar kjálki sé í 4ra ára skoðun). Svo er spjall ekki lítils virði. Það er fróðlegt að heyra hvað þeim þótti það merkilegasta sem gerðist fyrr um daginn.
Nálægðin og samveran er mikilvæg í háttatímanum. Vissulega er galli að uppáhalds þátturinn er sýndur samtímis. Hins vegar er Vod-ið og plúsinn að koma sterkur inn og getur reddað manni þegar þannig stendur á. Þar til að ég eignast háttatíma-töfrasprota þá mæli ég með að þið gefið ykkur tíma til að svæfa ungviðið.
Góða nótt
No comments:
Post a Comment