July 30, 2012

Útilega



Skömmu eftir að við komum heim úr síðasta ferðalagi urðum við eirðarlaus. Heima dettum við auðveldlega í hversdagslega rútínu í stað þess að mergsjúga sumarið. Veðurspáin lofaði góðu fyrir suður og suðausturland svo við fylltum strumpastrætóinn okkar enn og aftur af tjaldútbúnaði. Vissum af góðum vinum í Þjórsárdal sem voru að prufukeyra í fyrsta sinn flennifínt fellihýsi.

Sandártunga í Þjórsárdal er gríðarlega fallegt tjaldstæði. Auðvelt er að finna falleg rjóður og ímynda sér að maður sé einn í heiminum þó að svæðið sé stórt að flatarmáli. Þarna er lítið um þjónustu, s.s. rafmagn og þessháttar en við vorum ánægð með vatnssalerni og rennandi kalt vatn.

Á laugardagsmorgun reimaði ég á mig hlaupaskónna og hljóp útí buskann. Týndi réttu leiðinni og ætlaði að stytta mér leið í gegnum kjarrið. Það var svo erfitt að ég týndist næstum í þéttum og hávöxnum íslenskum skógi!!!! Óttaslegin um að misstíga mig, týnast og finnast aldrei aftur komst ég aftur uppá veg og skrölti sömu leið til baka. Oft bölvaði ég síðum og þykkum hlaupabuxum og síðerma dri-fit hlaupatreyju á meðan ég tók á því vegna þess hve skelfing heitt var í veðri. Já, spandexið of hlýtt og skógur svo þéttur að ég óttaðist að týnast... Ísland á laugardag.

Saman fórum við svo í 3 klst gönguferð, fjölskyldurnar tvær. Fundum bláber, gamlar vörður og sjarmerandi hjólhýsabyggð með garðálfum og krúsídúllum. Kærkomið var að vaða í ánni því það var svo hlýtt.

Á heimleiðinni stoppuðum við hjá garðyrkjubónda og keyptum ný lífræn jarðaber, tómata og kryddjurtir. Hjá þessum garðyrkjubónda var mikið nostrað við umhverfið og þar var völundarhús úr limgerði sem við villtumst í... hvílíkur ævintýraheimur.








































No comments:

Post a Comment