August 8, 2012

Þrír fyrir einn

Reykjanesviti

Fyrst: Júlí markmið


Júlí var tekin sem heilagur frímánuður. Markmiðið var að sleppa öllum skyldum og einungis gera það sem mig langaði. Samviskubitslaust! Sem er áskorun í sjálfu sér.  Það er furðu nærandi að gera það sem leitar á hugann hverju sinni án þess að vera búin að ákveða það með löngum fyrirvara. Merkilega við svona afslappelsi er að glettilega margt kemst í verk. Við fórum víða, gerðum margt og í miklu afslappelsi.


Hverir við Seltún

Annað: Ágúst markmið


Um næstu helgi ætla ég að taka þátt í Jökulsárhlaupi sem er frá Hljóðaklettum til Ásbyrgis (13 km). Þetta hlaup var ákveðið fyrir nokkrum mánuðum. Það er lengsta hlaup sem ég hef tekið þátt í. Sem er áskorun. Markmiðið er að klára. Tíminn mun engu skipta... svona næstum því. Hlaupið er í stórbrotnu landslagi. Þarna hef ég gengið 2x áður.

18. ágúst tek ég þátt í Reykjarvíkurmaraþoninu í 4 skipti. Það er stórkostlegt stemningshlaup. Reyndar var mín persónulega stemning með allra versta móti síðast þegar ég fór. Mig langar að bæta minn tíma agnarögn en vill þó enn frekar endurupplifa gleðivímuna þegar komið var yfir marklínuna í fyrstu tvö skiptin.

Ágúst verður því hlaupa og gleðimánuður Drekaársins mikla ;o)


Valahnúkur / Reykjanestá

 

Þriðja: nokkrar vangaveltur um hlaup

 

Eftir veturlanga hvíld á hlaupum reimaði ég á mig skónna, skellti mér í spandex gallann og setti á mig hlaupaúrið / púlsmælir. Ákveðin í að ofreyna mig alls ekki. Vildi vera laus við þráláta verki í sköflungi (búin að reyna ALLT til að losna við þann verk) svo ég setti allt mitt traust á hlaupaúrið og púlsmælinn. Alltaf að passa mig að ofreyna mig ekki. Blessaður púlsmælirinn lét eins og ég væri að fá hjartaáfall. Mestan part sumarsins hef ég því verið í stresskasti yfir hraða og hjartslætti... sem er leiðinlegt. Því ákvað ég að skilja þessi rafmagnstæki eftir í síðustu hlaupum og einbeiti mér að því að njóta hlaupsins. Já ég sagði NJÓTA!

Fyrir mér eiga hlaupin að vera í senn hugleiðsla og lofsgjörð líkamans. Það er bara stórkostlegt kikk að hlaupa upp og niður móa og mela, umkringd fuglum og ilmandi gróðri þó ég sé móð og másandi. Vitandi að holdið ræður við átökin svo lengi sem andinn lætur ekki undan. 
 

Valahnjúkur

No comments:

Post a Comment