July 26, 2012

Sælureiturinn


Það er afdrep á norðurlandi við litla lind og gróið hraun þar sem fuglar verpa, leita ætis og syngja. Þar er gott að vera. Eitthvað við staðinn gerir mig óendanlega syfjaða. Líklega dett ég bara úr hefðbundnum stressgír. Súrefnið er betra og rólegheitin endurnærandi. Þarna er hvorki sjónvarp né nettenging. Börnin styðjast við eigin ímyndunarafl úti í leik. Hraunkambar verða kastalar og leitað er í gjótum eftir hreiðrum fugla. Steinum er kastað útí lindina... þar sem Bergur bóndi segir að besta vatn í heimi streymir. Líklega er það rétt hjá honum.

Á meðan húsfreyjan nær upp góðum svefni uppi á háaloftinu eru þetta vinnubúðir húsbóndans. Í þetta skiptið tengdi hann viðarofn sem hann smíðaði sjálfur við reykrör. Það hefur tekið nokkur ár að safna kjarki í að rjúfa þakið. Að verkefni loknu var kveikt bál í kamínunni. Eldurinn er dáleiðandi. Gleðigjafi sem iljar og kætir.

Svo heppilega vildi til að vinir kíktu í heimsókn. Fjöldi drengja tvöfaldaðist og þá var kátt í kotinu. Það er svo gaman að sýna öðrum konungsdæmið. Kíkja á hænur, kanínur, hesta, kálfa og ref. Leika sér í móanum. Mömmur gátu líka dregið sig útúr skarkalanum og legið í grasi vaxinni laut.

Það var erfitt að slíta sig úr tímaleysinu og keyra í bæinn. En mikið sem landið var fagurt á heimleiðinni, rigningunni að þakka voru allir litirnir bjartari en áður. Mig langaði að kremjuknúsa fósturjörðina og purra hana á mallakútinn...












No comments:

Post a Comment