July 17, 2012

Töfrandi sandur


Staðurinn er afskekktur. Til að komast þangað þarf að keyra malarveg yfir heiði. Uppúr spegilsléttum firði og uppá fjall. Vegurinn var góður enda heiðríkja í byrjun júlí. Við í sumarfríi og okkur lá ekkert sérstaklega á. Fyrir krappa beyju og þá sáum við dýrðina sem beið okkar. Löng skeljasandsströnd og fagurblátt hafið. Skjátur á beit og fuglasöngur.

Tjaldað á túni hjá bóndanum og þökkuðum fyrir rennandi vatn. Sólskin og flugnasuð. Strákarnir voru ekki lengi að finna læk. Listaverk á sandinum. Kastalar og síki voru endalaus uppspretta leikja. Hvað er betra í heimi hér en vatn og nokkrir steinar? Rölta svo til baka skjálfandi af kulda og láta mömmu eða pabba þerra sér og hlýja áður en lagt er af stað aftur útí fjöru. Líklega fátt!





Þarna eru ekki margir bæir byggð. Kirkja þó, og kaffihús. Mér fannst sem þetta fallega kaffihús hafi verið rifið af rótum í 101 Reykjavík og plantað á þessum stórbrotna stað. Latte-ið mitt var fallega framreitt af miðbæjar hippster með týpugleraug.

Seinna var mér bent á að Vestfirðir eru eiginlega 101 Íslands. Hugsanlega eru Vestfirðingar meiri Íslendingar en við hin á sama hátt og miðbæjarrotturnar eru meiri Reykvíkingar en við flíspeysuklædda úthverfafólkið?



Það virðist vera rétt sem jarðfræðikennarinn minn í Kvennó sagði eitt sinn; að steinar eru ekki allir eins. Sandur er ekki heldur eins. Við sáum ótal litabrigði skeljasandsins á ferðalaginu okkar og snillingarnir á kaffihúsinu á Rauðasandi hafa sýnishorn af ólíkum fjörusandi - allt frá Hænuvík til Sahara. 







Í viðauka Vegahandbókarinnar er talað um orkusvið og línur um landið. Þetta var lesið upphátt í bílnum á leiðinni vestur með nokkrum hæðnistón. Eftir nótt á hjara veraldar fletti lesandinn þó uppí bókinni til að kanna hvernig orkusviðið væri einmitt á þessum stað... þarna var allavega endurnærandi fyrir sál og líkama.








Kvöldsólin við ströndina var töfrandi. Forvitin selur fylgdist með okkur úr fjarskanum. Sá yngsti blotnaði fljótt þar sem hann óttast ekki ölduna. Skjálfandi af kulda röltum við mæðgin til baka og hann sagði mér sögu af lítilli skel sem týndi mömmu sinni og pabba sínum en stóri bróðir skeljarinnar passaði hann og á endanum fundu þau pabba&mömmu skelinni í pollinu langt frá sjónum.



No comments:

Post a Comment