March 27, 2013

MM07: Sögur af þremur bræðrum



Trausti: 

Var að leika sér með vinum sínum í "Blómastofunni" á leikskólanum. Hann sat eins og kóngur uppi á borði og útdeildi hlutverkum í leiknum. Krakkarnir röðuðu sér upp og báðu um að fá verkefni. Trausti sagði að einn skyldi verða Spiderman, sá næsti gæti verið Vörður og sá þriðji fékk að vera Stjórinn. Loks kom að stelpunni í hópnum af á hlutverk. Þá vandaðist málið svo mér skilst að Trausti hafi hugsað sig um og sagt svo: "þú ert stelpa og þú mátt þrífa". Stelpurófan sem er leiðtogi í sér tók brosandi við því hlutverki og byrjaði að þrífa.

Hver rauðsokkaklædda mamma með sjálfsvirðingu hlýtur að fyllast stolti við það að heyra þessar sögu.

Bergur:

Frumburðurinn verður brátt 11 ára og er stundum barn en stundum unglingur. Í nokkrar vikur hefur verið bóla á kinninni hans... ég hélt að þetta hlyti að vera ofnæmi... svo blind gagnvart því að hann sé að eldast og þroskast. Þessum þroska fylgir að hann hefur nokkrar áhyggjur af því að verða skilnaðarbarn. Við foreldrarnir erum í lukkulegu hjónabandi en grínumst stundum með langar fjarverur húsbóndans. Einkabrandarar um að nú þurfi að sinna Maríu í Venezuela eða hinn pabbinn mæti hér á heimilið þegar hann er farin í vinnuna. Saklaust grín sem magnast upp eftir að þau berast í viðkvæm barnaeyru.  Í fyrradag fann Bergur sig knúinn til að segja við pabba sinn að: "Seriously pabbi, það kemur enginn hingað þegar þú ert í vinnunni. Henni mömmu þykir bara svo vænt um þig."

Logi: 

Fer með heimsins fallegustu bæn fyrir svefninn. Hún er einhvernvegin svona: "Ég elska mömmu mína, Trausta, pabba, Berg, ömmu og afa minn. Góði guð viltu gefa þeim súkkulaði og líka mér. Amen. Var þetta fallegt hjá mér?" Svo nú þegar eru að koma páskar má segja að Logi hafi verið bænheyrður... Hann er ekki svo þjakaður af fyrirfram mótuðum hugmyndum um kynjahlutverkin heldur elskar prinsessukjóla jafn mikið og bazuka-byssur!

Hvert eitt og einasta barn hefur einstaka sýn á heiminn. Það gott að staldra stöku sinnum við og reyna að sjá veröldina með þeirra augum... við lærum af því!

No comments:

Post a Comment