March 13, 2013

MM: 06 - Lestur er bestur

Bókalestur er líklega hollari en lýsi! 



Sem eirðarlaus krakki tel ég að fátt hafi gefið mér jafn mikið og að hverfa inní heim ævintýranna. Ein með sjálfri mér, uppí rúmi að lesa Ronju Ræningjadóttur, Öddubækurnar, Ísfólkið ásamt Tár,bros og takkaskó og svo margt fleira. Að lesa var að ferðast. Kynnast nýrri veröld og eignast vini í sögupersónunum.

Sem eirðarlaus kona veit ég fátt betra en að lesa og jafnvel enn betra að hlusta að hljóðbækur, því þá er hægt að "múltítaska". Enn ferðast ég um ímyndaða veröld höfunda og eignast vini í sögupersónunum. Dumbeldor, skólastjóri Hogwartskóla, segir í einni bókinni um Harry Potter að orð séu galdrar. Það tel ég að sé hárrétt hjá honum.

Með því að lesa bækur fyrir börnin okkar margföldum við orðaforða þeirra og málskilning. Auk þess sem nærveran ein er gefandi.  Sögurnar örva sköpunarkraft barnanna og þau læra ýmislegt um heiminn með því að lesa og skoða bækur. Fyrir börn í máltöku er fátt betra en bókalestur og samtöl.

Íslenskar bækur veita líka menningarlegt mótvægi við allt barnaefni sem stendur krökkum til boða í gegnum sjónvarp og tölvur. Það er gott fyrir okkur að lesa (og horfa á) efni sem byggir á þeim veruleika sem við búum við. Dóra landkönnuður, Bósi ljósár, Spiderman, Harry Potter og Ronja Ræningjadóttir endurspegla þann veruleika sem höfundar þeirra búa við. Þetta eru allt frábærar sögupersónur en það er líka gott að ota að börnum íslenskar sögupersónur eins og Teit tímaflakkara, Jón Odd og Jón Bjarna, Mæju Spæju og Arngrím apaskott.

Það er skoðun mín (ekki byggð á vísindalegum rökum) að við eigum að ýta bókum, sögum og frásögnum að börnum með öllum tiltækum ráðum. Það er hægt að lesa fyrir þau og leyfa þeim að skoða bækur sjálf í rólegheitum s.s. í bílnum. Vegna þess að ég er svolítið húkkt á hljóðbækum hef ég á boðstólnum í bílnum. Frumburðurinn, 10 ára, fer með mér á bókasafnið og velur sér hljóðbók sem við hlöðum inná smartsímann hans.

Í löngum bílferðum og ferðalögum fjölskyldunnar hlustum við á þjóðsögur, útvarpsleikrit og margt annað sem er í boði af bókasöfnum bæjarins. Tölvur og teiknimyndir fá ekki að vera fyrsta val!

Bæði ég og synir mínir höfum þurft að hafa býsna mikið fyrir því að tala rétt, lesa hratt og skrifa rétt mál. Það er æfing og maður er aldrei útskrifaður í eigin móðurmáli. Um leið og ég fór sjálf að líta á íslenskuna sem þjón minn fremur en húsbónda breyttist viðhorfið til tungunnar.

Með lestri og markvissri málörvun er svo margfalt auðveldara að færa í orð hugsanir manns og langanir. Þannig verður auðveldara að eiga samskipti við vini og fullorðna.

Þrátt fyrir yfirlýst markmið "Miðvikudags-mömmupistla"  sé að predika ekki þá freistast ég til þess í þetta skiptið. Svo krakkar, lesið fyrir börnin ykkar. Því bók er betri en kók ;o)

No comments:

Post a Comment