August 17, 2012

...á hlaupum


Þessi vika hefur verið svolítið á hlaupum. Fjölskyldan fór norður um síðustu helgi til að fylgja mér í Jökulsárhlaupið. Gist var í sæluhúsinu í Aðaldalnum, í næsta nágrenni við Ásbyrgi þar sem hlaupið var. Í stuttu máli sagt þá var það mikið hamingjuhlaup. 13 km leið frá Vesturdal/Hljóðaklettum til Ásbyrgis. Markmiðið var að njóta stórkostlegrar náttúru landsins og heillrar heilsu. Tímatakann var minna mál.

Veðrið var dásemd og stemningin góð. Mér leið vel allan tímann. Datt reyndar einu sinni en það var "þægileg bylta". Leiðin er á þröngum göngustíg, sandflákum, grófu grjóti og upp myndarlega hæð, svo lítið var um framúrhlaupum. Í marga km horfði ég dáleidd á rauðu hlaupasokkana á næstu hlaupakonu. Lagalistinn í ipodnum var líka sjúkt góður. Klappliðið var búið að koma sér fyrir í fallegri laut, rétt eftir rásmark þar sem það hvatti okkur áfram. Það kom líka skemmtilega á óvart að þau voru búin að koma sér líka fyrir rétt fyrir marklínu til að "gefa okkur five". Ég lauk hlaupinu á 1 klst. og 33 mín. Sem þýðir að ég var fyrir framan miðju í mark og u.þ.b. 10 minútum fyrr á ferðinni en ég lagði upp með.

Eftir að klára hlaupin fengum við smá sumarauka í bústaðnum. Týndum haug af bláberjum, veiddum silung, kíktum á hamingjuhænurnar hennar Fíu og skáluðum í kokteilum.

Þegar suður var komið átti frumburðurinn 10 ára afmæli!!! Vissulega tímamót fyrir bæði afmælisdrenginn sem og móður hans. Greyið hefur ekki enn fengið almennilega stórveislu en var vakinn upp á afmælisdaginn með söng, pakka og amerískum pönnukökum. Almennt dekur stóð svo yfir allan daginn.

Í vinnunni eru skrítnir dagar. Börnin "mín" eru að kveðja öryggi leikskólans og hefja nýtt og spennandi líf í fyrsta bekk. Það eru fáir á deildinni og því "hljóðlátt" hjá okkur á meðan við undirbúum að taka á móti nýjum hóp.

Á morgun er svo seinna hlaup mánaðarins. Reykjavíkurmaraþonið - 10 km. Klukkutíma sem ég hef kviðið fyrir í heilt ár! Vonandi mun góð reynsla frá síðustu helgi hjálpa mér svo að hausinn hlaupi með mér en ekki á móti. Ég hef markmið. Tímamarkmið. Finnst það svolítið scary og því mun það ekki verða upplýst á opinberum vettvangi ;o)

Mikið sem ég sé eftir því að hafa ekki safnað áheitum í þágu góðs málefnis í þetta skiptið. Það var mjög gaman að gera það í fyrra. Þess í stað ætla ég að heita á aðra sem hlaupa til góðs.

 Undirbúningur í Ásbyrgi

 13 km: Agnes, Gerða og Fríða

Rétt eftir start
 
 "Gemmér fæf" - klapplið ársins 

 Hlaupalið Sandala: Egill, Fríða, Gerða og Agnes



No comments:

Post a Comment