September 17, 2012

Tuð og takk


Nýlega hlustaði ég á viðtal í BBC við tölfræðing sem fór yfir tengsl velsældar þjóða við líkur á gullverðlaunum á Ólympíuleikunum. Án þess að fara náið í þessi fræði þá má segja í stuttu máli að ríkar þjóðir séu líklegri til að ná á verðlaunapall, jafnframt eru fjölmennari þjóðir líklegri til verðlauna. Það er skömm hve fjárhagslegur stuðningur við íþróttafólk á Íslandi er lélegur. Enda sjaldgæft að heim komi verðlaunapeningur af Ólympíuleikum. Hljóti Íslendingur verðlaun fær hann jafnframt Fálkaorðu... svo sjaldgæft er að íþróttamaður standi á palli, fremstur meðal jafningja á heimsvísu.
 

Í ár sendum við fjóra fatlaða íþróttamenn á leikana og við fengum gullverðlaun í sundi. Jón Margeir fékk þó ekki Fálkaorðu. Fáránlegt! 



Í þetta skiptið verður ekki tuðað yfir þessu óréttlæti og pólitík tengdri æðstu viðurkenningu Forseta Íslands heldur skulum við snúa okkur að líkum þess að Íslendingur fái verðlaun á Ólympíuleikum. Ísland er fámennt og leggur almennt ekki mikla peninga í íþróttamál og því er merkilegt hve marga verðlaunahafa meðal fatlaðra við eigum.

Jón Margeir er ekki sá fyrsti sem fær verðlaun á Ólympíuleikum fatlaðra, öðru nær. Því ber að fagna að íslenska þjóðin sýni þessum olnbogabörnum samfélagsins nægilegan stuðning til að þau geti náð hæstu metorðum í íþrótt sinni. Að baki þessum árangri liggur sjálfsagt blóð, sviti og tár. Ég þekki ekki fólkið sem stendur að baki þessum árangri en því ber að þakka. Það er merki þess að við búum í manneskjulegu samfélagi að sinna ólíkum þörfum einstaklinganna.

Hafa ber í huga að fatlaðir íþróttamenn þurfa oftar en ekki að yfirvinna fleiri hindranir í iðkun sinni en hinir ófötluðu. 

Takk - þið sem lögðuð grunnin að þessari velgengni.

1 comment: