October 2, 2012

Meistaramánuður

Að setja sér markmið er góð leið til að beina orku sinni í ákveðin farveg. Öll teljum við okkur geta gert betur í einhverju. Flest erum við alveg á leiðinni að gera eitthvað stórkostlegt. Hvort sem það er að verða sjúkt mjór, ýkt ríkur, geggt klár eða hvað annað.

Viðleitni mín á þessu ári hefur verið að tikka við "to do - listann" og því hef ég fundið mér markmið í hverjum mánuði. Viðfangsefnin hafa verið ólík en öll stefnt að því að gera mig að betri manneskju og auðga tilveru mína. Að vissu leiti má rekja þessa hugmynd til Meistaramánaðar í fyrra. Hugmyndarfræðin hitti mig í hjartastað. Það gerist nefnilega ekkert nema kona geri það sjálf. Ekkert ávinnst nema unnið sé markvisst að því.

Það er svo margt sem mig langar að gera í október. Til dæmis að verða sjúkt mjó, ýkt rík og geggt klár... og líka:
  • mála vegg í eldhúsinu og setja upp hillur fyrir matreiðslubækurnar mínar
  • vera duglegri að elda nýjar uppskriftir úr þessum sömu matreiðslubókunum 
  • tala við vini mína í stað þess að læka bara facebookstatusa þeirra... þið vitið svona "old school" símtöl og jafnvel hitta suma
  • kenna miðlungnum að lesa
  • ná að fullkomna bakhöndina í tennis
  • eyða ekki peningum í óþarfa
  • lesa bók eftir Laxnes
  • útrýma sætindum úr lífi mínu
  • byrja í þriðja sinn á lopapeysunni sem ég rakti 2x upp fyrir rúmu ári síðan



Auðvitað ekki séns að ná að fullkomna allt þetta á einum mánuði en kannski gerist eitthvað af þessu... Til að byrja með verður fitjað uppá prjóna. Að prjóna heila lopapeysu á mánuði er afar metnaðarfullt markmið. Líklega óraunhæft svo ef það tekst verð ég sjúkt ánægð.

Prjónaskapur og önnur handavinna er svo áþreifanlegt markmið. Þannig er hægt að horfa og handfjatla árangurinn ólíkt t.d. að neita sér um eitthvað. Það er gott fyrir sálartetrið að prjóna. Notalegt að sitja í haminguhorninu sínu og horfa að sjónvarp eða hlusta á Laxnes með hlýjan lopa í fanginu. Ég hlakka bara til að takast á við markmiðið. Ef ekki næst að klára heila peysu á 30 dögum þá verður lokið við hana ögn seinna... og það er bara allt í lagi.

Í stað þess að fljóta stefnulaust í lífinu án þess að reyna að hafa á það áhrif hef ég allavega að einhverju að stefna. Það hlýtur að vera megin inntakið í meistaramánuði... eða hvað?

No comments:

Post a Comment