October 11, 2012

Móðursystir með hríðir



Einmitt núna, í dag, er litla systir mín uppi að fæða sitt fyrsta barn. Það er mikil eftirvænting að hitta nýjasta fjölskyldumeðliminn. Fyrsta fæðingin er einstök, allar fæðingar eru vissulega sérstakar en tímamót fyrstu fæðingar eru meira afgerandi. Barn fæðist og kona verður móðir.

Hluti eftirvæntingarinnar er óvissan um kyn barnsins. Mun yngstu systur takast það sem við hinar gátum ekki, að eignast dóttur? Verðandi amman og afinn eru þriggja dætra foreldrar og eiga fimm stráka barnabörn. Víbrandi spenningur er því hvort mynstrið verður brotið upp. Í öllum þessum vangaveltum hafa nokkrir nefnt að "kynið skipti engu, heldur að barnið sé heilbrigt"

Þessi algenga setning vekur upp nokkrar spurningar. Vissulega er heilbrigði barns mikilvægt. Mjög mikilvægt. En er það mikilvægast? Hvað ef barnið er með fæðingagalla eða fötlun, er fæðing þess og tilvera einskis verð? Hvernig á að takast á við nýfædda barnið ef það er ekki fullkomið? Í huga verðandi foreldra munu ófædd börn þeirra alltaf vera óaðfinnanleg. Stundum, gerist það samt ekki og hvað þá?

Það eru nefnilega börnin sem krefjast af manni aukinn þroska sem stækka hjartað mest. Þau fá gjarnan mestu athyglina og ástúðina. Fylgist með foreldrum "óheilbrigðra" barna og þið sannfærist.

Ég sit og bíð eftir fréttum af fæðingu barns sem verður elskað og boðið velkomið í þennan heim. Það verður áreiðanlega dásamlegt og best. Kannski strákur og kannski stelpa, vonandi heilbrigt en alltaf, alltaf velkomið og kært.

Það er mikilvægast!

3 comments:

  1. Vökna um augu :-). Hlakka til að heyra af henni litlu systur þinni.
    K. Fríða

    ReplyDelete
  2. falleg skrif mín elskulega! jii hvað maður er spenntur og sendir góða strauma til litlu sys, knus Anna

    ReplyDelete
  3. Frábær skrif Agnes :)

    KV. Hrafnkatla

    ReplyDelete