Í byrjun ársins var tekin sú ákvörðun í fjölskylduboði að láta verða að því að ganga Laugaveginn. Það hefur staðið til í fjöldamörg ár að ganga og keyra þessa leið en aldrei orðið úr því. Lífið er núna og því er mikilvægt að gera sem allra mest úr því á meðan hægt er.
Í upphafi leit út fyrir að gönguhópurinn myndi samanstanda af tæplega 30 fjölskyldumeðlimum! Svo þegar leið á sumarið var ljóst að einhverjir myndu helltast úr lestinni. Þannig er það alltaf. Skiljanlega. Lífið er núna en stundum er flókið að láta allt ganga upp á tilsettum tíma. Veðurspáin var líka óhentug fyrir suðurlandið og því ljóst að ef við myndum láta verða að þessu myndum við þurfa að sætta okkur við stöku rigningarskúr.
Síðastliðin ár höfum við gert lítið af því að ferðast um hálendið okkar ægifagra. Útilegur hafa heldur ekki heillað mig uppá síðkastið enda finnst mér lítið spennandi að hanga á yfirfullu tjaldstæði með stuðboltum. Auk þess sem bleyjuskipti á 2 litlum kútum henta illa í útilegum. Hins vegar hef ég saknað þess að heimsækja ekki náttúruperlurnar okkar á hálendinu.
Til að geta farið svona ferðalag með þrjú börn á aldrinum 2ja til 8 ára þarf annars vegar mikla skipulagshæfni og hins vegar sterkar taugar. Það vill einmitt svo vel til að heimilisfaðirinn hefur sterkar taugar og ágæta skipulagshæfileika. Degi áður en við lögðum af stað þá ákvað minn Bjartur að sjá um að trússa (vera á bíl og sjá um að tjalda) auk þess sem hann ætlaði að vera með strákana svo ég gæti gengið. Þó það hefði verið meiriháttar að ganga þetta saman er ljóst að þegar á reyndi var býsna gott að hann væri í trússliðinu. Því trússararnir lentu í ýmsum ævintýrum á meðan við gengum Laugaveginn.
Tryllitækið okkar rauða sá um að flytja okkur inní Landmannalaugar þar sem við gistum fyrstu nóttina. Mikil ósköp Dómadalsleiðin inní Landmannalaugar falleg.
Laugarnar eru auðvitað perla og aðstaðan til fyrirmyndar að því undanskyldu að tjaldstæðin eru ömurleg. Við tjölduðum í mýri! Strákarnir voru eins og beljur sem sleppt hefur verið út á vorin og óðu um allt fullir af lífsgleði og forvitni... (lesist: gerðu móður sína klikkað pirraða). Þá var nú líka ljúft að dýfa sér ofan í heita náttúrulaugina og baða sig fyrir háttinn. Fæ ekki nóg af svona náttúrlaugum... finnst þær undursamlegar.
Þegar við vorum búin að tjalda nýja fjölskyldutjaldinu. Róa strákastóðið í heitri lauginni, tannbursta og klæða í ullarnáttfötin. Var ljúft að leggjast í svefnpokann og sofa vært. Hvíla sig fyrir næsta verkefni, nefnilega að ganga inní Hvanngil með viðkomu í Hrafntinnuskeri og Álftavatni.
Þetta kalla ég verðugt verkefni. 3 guttar í tjaldi í Landmannalaugum og svo að ganga alla leið í Hvanngil. VÓ...
ReplyDelete