Áfram með smjörið...
Fimmmenningarnir lögðu af stað frá Landmannalaugum á fimmtudagsmorgun. Fyrsti hluti leiðarinnar er fremur brattur, þannig lagað. Leiðin upp að Hrafntinnuskeri er afar falleg og mér þykir alltaf gaman að ganga uppí mót og sjá yfir landið. Þegar við vorum búin að ganga uppí 900 m. hæð þá vorum við komin inní skýjaþykkni og skyggnið því takmarkað. Ef kona er jákvæð þá myndi hún segja að landslagið hafi verið "sveipað dulúð". Það má því líka segja að það sé líka gaman að upplifa landið og náttúruna í því ástandi.
Helsti gallinn var sá að mér kólnaði fljótt þegar við stoppuðum. Ég þrammaði því mikið á undan samferðarfólki mínu, hreinlega til að halda á mér hita. Síðasta spottann inní skálann við Hrafntinnusker rigndi nokkuð og því hlakkaði okkur að komast í skjól. Hins vegar bauðst okkur einungis andyrið á skálanum. Von var á hópi sem átti bókað pláss og hópurinn átti forgang að allri aðstöðu. Það er svosem skiljanlegt og ég hefði orðið hundfúl að eiga pantaðan skála og koma svo að honum blautum og skítugum eftir fólk sem staldraði stutt við. Skálavörðurinn bauð okkur þó velkomin inn og sagði að þetta væri besti dagurinn í Hrafntinnuskeri í viku. Við hlógum móðursýkislega...
Eftir stutt stopp héldum við áfram göngunni og áfram var þoka. Leðin er afar vel merkt en stundum sáum við ekki á milli stika. Ég skil því betur að fólk geti lent í vandræðum á þessum slóðum þegar veður eru vond.
Við mamma gengum saman, nokkuð á undan Bjössa, Jónu og Kötu. Ég var hvorki með síma né gps tæki og ekki einu sinni klukku. Mér fannst það bara gott að vera algjörlega sambandslaus. Hin voru þó með þessi tæki svo öryggiskröfum var fylgt. Þetta sambandsleysi gerði það að verkum að vissi ekkert hvað okkur miðaði né hvað tímanum leið. Það var stundum absúrd í þessu lélega skyggni. Hins vegar var það meiriháttar tilfinning að ganga niður úr skýjunum og sjá samtímis Álftavatn og skálann sem liggur við vatnið.
Það þýddi að stutt var í Hvanngil þar sem trússararnir okkar tóku á móti okkur með heitri kjötsúpu og hlýjum tjöldum. Ég var ekkert þreytt eftir nærri 10 tíma göngu og hefði vel getað haldið áfram. Það var þó auðvitað ljúft að hitta strákana sína og leggjast inní tjaldið og sofa værum blundi.
Blundurinn var vissulega vær því við sváfum býsna lengi, þe. íbúarnir í okkar tjaldi. Við horfðum á marga, sem líklegast höfðu gist í Álftavatni ganga fram hjá tjaldstæðinu okkar á meðan við borðuðum morgunmatinn okkar og smurðum nesti. Við lögðum af stað frá Hvanngili um kl. 11 og gengum tilbreytingasnauðasta hluta leiðarinnar inní Emstur á 3 tímum. Það var bjart yfir og við sáum vel umhverfið. Þetta var skemmtilega frábrugðið fyrri deginum.
Inní Emstrum biðu trússararni og tóku nesti með okkur. Þarna slóst Bergur með í för. Hann var spenntur og mjög tilbúin enda með eigin göngubakpoka fullan af dýrindis nesti og gúmmítúttur til að vaða árnar. Það var reglulega skemmtilegt að fá hann með en samtímis ákveðið stress því hann gat ekkert hætt við og hoppað upp í bíl til Simma afa eða pabba síns.
Strákurinn byrjaði vel en eftir ca. 45 min fór þetta að vera erfitt og hann kvartaði undan þungum poka og hvað þetta væri langt o.s.frv. Það var frekar fyndið hve dramatískir tilburðir jukust þegar ég veitti honum einhverja athygli ;o) Ég leiddi þetta bara hjá mér og þegar hann var búin að ganga í u.þ.b. 2-3 klst þá fann hann sinn takt og var algjörlega að fíla þetta. Það var gaman því aðal markmiðið var að honum fyndist þetta nægilega skemmtilegt til að vilja fara í langa göngu aftur. Við stoppuðum oft og hann hafði sérvalið nesti. Hvorttveggja er lykilatriði til að drífa drenginn áfram.
Annars var leiðin frá Emstrum skemmtileg. Markárfljótsgljúfur eru hrikaleg og falleg. Við vorum vör við öskuna úr Eyjafjallajökli, en samt ekki í því magni sem ég var undirbúin fyrir. Gróðurinn sprettur upp í gegnum sandinn. Magnaður þessi lífsvilji. Þegar nær dró Þórsmörk gengum við inní ilmandi birkiskóg. Ómæ, hvað ég held að hvergi á landinu ilmi birki jafn vel og í Þórsmörk. Í alvöru. Við þurftum að vaða eina jökulá. Það var hressandi. Vegna úrkomu dagana á undan var nokkuð mikið í ánum (trússararnir lentu líka í basli með að komast inní Þórsmörk). Við vorum orðin nokkuð þreytt þegar komið var að þessu vaði enda búin að vera á göngu í 8 klst. Það var þó grínlaust endurnærandi að vaða jökulá uppí mið læri.
Inní Básum biðu okkar svo trússararnir ásamt fleirum úr fjölskyldunni sem tóku vel á móti okkur. Það logaði í grillinu og lambalærið var borið fram rétt undir miðnæti okkur til heiðurs. Við vorum í tæpa 11 tíma að ganga frá Hvanngili og inní Þórsmörk. Ég var lúin þá um kvöldið. Ánægð með árangurinn. Stolt af hópnum. Þakklát fyrir að vera (semi) heilbrigð sál í hraustum líkama. Með hjartað þrútið af ættjarðarást... hvílíkt sem landið okkar er fallegt. Hálendið er einstakt. Það er lítið og viðkvæmt en samtímis víðáttumikið og harðbýlt.
Til hamingju með þetta... eflaust verið frábært...
ReplyDeleteDásamleg lýsing. Stolt af Bergi. Marteinn bað um slíka ferð í afmælisgjöf í fyrra og því skammarlegt að segja frá því að vera ekki enn búin að ganga með drenginn þessa leið. Stendur til bóta. Fegin að ég fékk að hlaupa og ganga þessa leið fyrr í góðu skyggni. Skiptir öllu. Til hamingju með þessa flottu ferð. Satt segir þú, "lífið er núna".
ReplyDelete