July 17, 2011
Grænna en grænt
Síðast var blái liturinn ríkjandi en nú finnst mér allt svo grænt. Djúpgrænt, skærgrænt, ljósgrænt, þurrgrænt, mosagrænt... endalaust. Sumarið er í hámarki og gróðurinn í blóma.
Við fórum aftur í útilegu fyrst sú fyrri tókst svona ljómandi vel. Í þetta sinn fórum við í Þjórsárdalinn. Ég hef afar takmarkaðan áhuga á yfirfullum tjaldstæðum þar sem er "rosa stuð". Ég er afar ófélagslynd á svoleiðis stöðum. Þjórsárdalur er svolítið gamaldags tjaldstæði sem rúmar mikið af fólki. Þarna eru rjóður sem passa fyrir 1 og 2 tjöld saman. Þar er líklega ekki hægt að "plögga sig í rafmagn" eins og á nýmóðins tjaldstæðum. Okkur leið afar vel þarna og sváfum vært í tjaldinu. Veðrið var líka frábært. Hlýtt og bjart.
Við fórum í skemmtilega gönguferð meðfram ánni sem rennur í gegnum tjaldsvæðið... er ekki viss um hvað hún heitir en ég ætla að skjóta á að það sé Selá. Logi vinnumaður henti steinum útí hana eins og enginn væri morgundagurinn...
Rúsínan í pylsuendanum var síðan náttúruleg laug við Hruna, í nágrenni við Flúðir . Algjör perla sem við heimsóttum í fyrsta sinn í dag. Það merkilega er að vinnumaðurinn sem bleytti sig í fæturnar við að kasta steinum og viðardrumbum útí ánna degi áður fannst rosalega klígjulegt vatnið í heitu lauginni. Barnið sem líklega er það sóðalegasta norðan Alpafjalla fannst þetta skrítin sundlaug og frekar mikið bjakk.
Ísland í sumarbúningi... hvílík sæla... og við í fríi akkúrat þegar sólin skín... hvílík forréttindi!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment