July 11, 2011

Útilega


Fimm manna fjölskylda fékk boð um að koma í heimsókn í bústað til annarrar stórfjölskyldu. Við þáðum boðið, fylltum bílinn af dóti og tjölduðum í íslenskum móa við fallegt stöðuvatn. Svo svifum við inní draumalandið við undirleik margradda fuglasöng.
Börnin eru á sama aldri. Það elsta er næstum tíu ára og yngstur er 8 mánaða sjarmatröll. Það er svo gaman hvað þau smella saman í hvert sinn sem þau hittast. Jafnvel þó stundum líði langt á milli. Merkilegur eiginleiki barna að detta áreynslulaust í leik.
Tjaldið var vígt að nýju... þannig lagað. Því það hefur ekki verið notað frá árinu 2005! Strákunum mínum þótti ekki leiðinlegt að sofa á flatsæng, öll fjölskyldan saman! Ég hef oft velt því fyrir mér hvert málið sé með sérherbergi. Líklega fer betur um alla ef við svæfum öll saman í einu rúmi. En það þykir ekki vandað uppeldi, skilst mér... og þó.

Yfir í allt annað... fegurðardísin í hinni fjölskyldunni fangaði athygli mína og ég náði af henni mynd. Úff, hvað ég held að það geti verið erfitt stundum að vera stelpupabbi þegar maður á svona fallega dóttur.
Stóru börnin minntu á Ronju Ræningjadóttur og Birki Borkason. Í eigin heimi úti um móa og mela. Pabbar þeirra eru þó miklir mátar og minna á engan hátt á þá skítugu skógarræningja ;o)
Til að bæta gómsætu glassúri á þessa glansmynd þá sigldu pabbarnir útá Þingvallarvatnið með fullan bát af strákspottum á meðan ungamamman gaf brjóst og ég dáðist að brjóstagjöfinni.

 Ég mátti líka til með að taka myndir af þessum glaðværu vinnumönnum. Sem eru næstum því vandræðalega líkir... þeir eru samt ekki bræður... krossa fingur og sver við hvíta biblíu!

No comments:

Post a Comment