February 2, 2012

Sæt en sykurlaus

Eitt af ótal markmiðum mínum á ári Drekans er að neyta ekki viðbætts sykurs í febrúarmánuði. Þetta er afar, afar, afar metnaðarfullt markmið. Það er ekki nauðsynlegt að þekkja mig mikið til að vita að ég er "sykursjúk" - algjörlega sjúk í sykur.

Nú eru komnir 2 sykurlausir dagar og ég er á lífi. Það sem merkilegra er að enn hef ég ekki tekið neinn af lífi. Ég lofa þó ekki að allir komi lífs af í þessu verkefni... það er þó rétt að vona hið besta.

Ástæðan er tvíþætt. Hin augljósa er sú að sykur er óhollur. Hin ástæðan er flóknari, og þó ekki, ég er að æfa viljastyrkinn. Viljann þarf að þjálfa eins og hvern annan vöðva. Efling viljans er þema markmiða ársins.

Sykurbindindi er ekki einfalt mál. Það krefst skýrrar skilgreiningar. Hvað er sykur og hvað er ekki sykur... það er flóknara en mig grunaði. Sumir "sérfræðingar" segja að ekkert sé að marka sykurbindindi nema ALLUR sykur sé fjarlægður, þar með taldir ávextir. Aðrir tala um að hvíti sykurinn sé frá skrattanum komið. Þýðir það að ég geti drukkið líter af dag af agavesýrópi með góðri samvisku? Hvað með gervisykur... það er gervi, sumsé ekki sykur. Jæja niðurstaða mín er svona:

Má:
  • ávextir (hef ekki trú á neinu mataræði sem hvetur til þess að maður sneiði framhjá ávöxtum og grænmeti) 
  • agave
  • hunang
  • pálmasykur og annað "fínerí" úr heilsubúðum
  • döðlur, sveskjur, fíkjur
  • ...og já, sparkið í mig, kallið mig hræsnara en 70% súkkulaði er ekki sykur - hey, þetta er mitt verkefni!
Má ekki:
  • nammi
  • kók
  • ís
  • kökur (þetta er allt frekar augljóst)
  • sykraðar mjólkurvörur
  • tilbúnir djúsar
  • ...og flest annað sem gefur lífinu gildi ;o)
Já, ég verð svooo skemmtileg næstu 27 dagana. Ef vel gengur verð ég ein af þessum óþolandi, frelsuðu lífsstílsskinkum sem nota hvert tækifæri til að tala um skaðsemi sykurs, síðan mun ég taka út glúten, því næst mjólk, svo verð ég farin að nærast einungis á sömu fæðu og steinaldarmaðurinn... þið getið byrjað að hlakka til ;o)

3 comments:

  1. frábær pistill Agnes, er einmitt svoooo sammála þessu með að þjálfa viljastyrkinn og á það til að taka mér allskonar svona vitleysur til prófunar, eingöngu til þess;) Er einmitt á því að allir hafi gott því!

    ReplyDelete
  2. já og gangi þér vel, you can do it!!!

    ReplyDelete
  3. I'm in - eftir helgi.. Held að viljavöðvinn minn sé frekar aumur þessa dagana, þetta árið! k. Fríða

    ReplyDelete