Húsbóndinn eyddi lunganu af árinu í að fljúga B- 747 á milli Langtíburtuistan til Fjarskistan. Hann segir það misskilning að „arabíska vorið“ hafi eitthvað með nærveru hans að gera.
Einræðisherra fjölskyldunar, sjálf Húsmóðirin stýrði heimilinu með styrkri hönd. Öllum að óvörum hóf hún störf á leikskólanum Geislabaugi auk þess sem hún tjáir sig fjálglega um sín hjartans mál í fjölmiðlum.
Töfrastrákurinn Harry Potter lagði álög sín yfir hann Berg á þessu ári og erum við búin að lesa vel yfir tvöþúsund blaðsíður um ævintýrin í Hogwartsskóla á árinu. Þess auki spilar Bergur handbolta með Fram og stundar sund hjá Fjölni.
Sigrar Trausta á liðnu ári eru jafn margir og þeir eru sætir. Hann sýnir stríðsrekstri miklum áhuga, syngur eins og engill og hlær bjartar en nokkur annar. Það má segja að Trausti hafi sett fataskápinn sinn á annan endan þegar hann komst að því að hann elskar rauðan og að grænn sé fyrir lítil börn.
Logi Baldur kemur sterkur inn þegar stuð er annars vegar. Enda með eindæmum hress drengur og hefur verið meira og minna í lífshættu allt liðið ár.
Við höfum gert margt skemmtilegt saman á þessu ári. Skíðaferð til Akureyrar bæði í byrjun árs og í desember var stórskemmtileg. Auk þess fórum við til Suður Frakklands í sumar. Gengum Laugarveginn og Leggjabrjót. Áttum góða daga í sveitasælunni á Sandi. Enduruppgötvuðum dæmalausa dásemd Þórsmerkur og hálendisins.
No comments:
Post a Comment