Pistill eftir mig sem birtist í síðasta Sunnudagsmogga:
Eigum við að koma í berjamó?“ Spurði ég fjögurra ára son minn sem svaraði mér brosandi útað eyrum „jahá, jibbý!“. Ég lét mér ekkert bregða við að honum þótti mikilvægara að taka til sverð og skjöld í leiðangur okkar útí móann fremur en að leita að berjatínunni. Það er alvanalegt fyrir þriggja stráka mömmu að ferðast um með fylgdarsveina sem eru gráir fyrir járnum. Eins og gefur að skilja eru vígbúnir synir eru auðvitað stolt allra friðelskandi mæðra. Kátínan var þó fljót að breytast í vonbrigði og gremju þegar hnokkinn áttaði sig á að það höfðu orðið hræðileg mistök. Móðir hans virtist ætlast til þess að hann týndi ber. Honum hafði greinilega misheyrst. Hann taldi sig nefnilega vera á leið í berjaMÁ. Þegar mesta bræðin var runnin af honum settist hann sáttur í berjalyngið og týndi dýrindis bláber í fötuna sína.
Yngri bróðirinn hafði annan háttinn á. Honum þykir algjör óþarfi að berin þurfi að millilenda í krukkunni áður en þau enda uppí munni hjá honum. Enda þykir honum margfalt mikilvægara í þessu lífi að gleðja bragðlaukana fremur en að standa í stríðsrekstri. Ég þarf heldur ekki að óttast að tína honum í móanum þar sem “mmmm”
Afköstin voru borin heim og skipt bróðurlega á milli fjölskyldumeðlima. Hvítum strásykri sturtað yfir berin og öllu sökkt í þeyttann rjóma. Dásemdin ein. Ég skil vel hvernig hreindýraskyttum líður þegar þeir borða bráðina sem mikið var haft fyrir að elta uppi, skjóta og bera til byggða. Að borða nýtínd bláber með roða í kinnum eftir endurnærandi útiveruna er eitt af því besta sem til er.
Þetta stutta tímabil berjatínslu er á tímamótum sumarloka og skólabyrjunar. Sumarið var yndislegt. Fjölskyldan upplifði ýmis ævintýri í sumarfríinu. Við ferðuðumst til heitu landanna, gengum á fjöll, gistum í tjaldi, heimsóttum vini, böðuðum okkur í heitum laugum á afskekktum stöðum og náðum meira að segja að slaka á heima við. Sumarið sem leið var vissulega góður tími.
Núna þegar haustið er að byrja verð ég þó að segja það sem mér býr í brjósti. Nefnilega; Halelúja. Dýrð sé guði. Sumarfríinu er lokið! Samveran með fjölskyldunni er mér mikilvæg en mikið sem það er nú gott að komast í rútínu. Blessuð börnin mæta glöð á sína uppeldisstofnun þar sem vel er tekið á móti þeim. Að vinnudegi loknum koma þau heim, búin að leika úti og inni, leysa þroskandi verkefni og borðað máltíðir sem taka mið af markmiðum manneldisráðs. Þau eru líka ánægð með að festuna í hversdagsleikanum. Það er bæði gott að fara í berjamó og berjamá.
No comments:
Post a Comment